27.04.2009 - 16:28

Áhugafélag stofnađ

Félag áhugamanna um spendýrarannsóknir
Félag áhugamanna um spendýrarannsóknir
Á kosningadaginn, þann 25. apríl 2009 hittist hópur fólks á Hvanneyri í Borgarfirði, þar á meðal fulltrúi Melrakkaseturs Íslands.

Tilefnið var að safna saman öllum þeim sem áhuga hafa á og stunda rannsóknir á íslenskum spendýrum. Hugmyndin kom frá Söndru Granquist og á hún heiður skilinn fyrir að halda því til streitu að koma mannskapnum saman en það var ekki auðvelt að finna dag sem allir gætu komist, búið að taka allan veturinn og nú var komið að því, hvort sem væru kosningar eða ekki..

Nema hvað, þarna var samankominn fjölbreyttur hópur manna og kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á spendýrarannsóknum á Íslandi. Eins og menn vita er spendýrafánan ansi fábreytt en þrátt fyrir það mátti sjá á kynningum að það eru margvíslegar rannsóknir sem eru eða hafa verið stundaðar á spendýrum hérlendis þó margt sé ennþá óunnið.

Á fundinum var kosin undirbúningsstjórn, skipuð þeim Söndru Granquist, Eddu E. Magnúsdóttur og Rán Þórarinsdóttur.

Fundarmenn kynntu verkefni sín sem fjölluðu m.a. um seli, hvali, hreindýr, minka, kanínur, refi, hagamýs, kýr, kindur, hesta o.fl.

Þetta er líklega fyrsta spendýrafélagið sem verður stofnað á Íslandi og er hugmyndin að úr verði e.k. mammal society og spennandi að sjá hvernig framhaldið verður. Þarna er búið að brúa bilið milli þeirra sem vinna með húsdýr og villta dýrastofna og sjávar og landspendýr - ef hægt er að segja að um bil hafi verið að ræða.

Við hjá Melrakkasetrinu erum stolt af því að taka þátt í stofnun þessa félags enda má segja að melrakkinn sé einkennisdýr Íslands, alla vega þegar talað er um spendýr á landi. Við munum halda utan um heimasíðu félagsins hér á þessari síðu til að byrja með enda er www.melrakki.is  mjög svo viðeigandi vefslóð fyrir spendýrasamfélagið.
 
Vefumsjón