25.07.2014 - 09:51

Gott sumar í Melrakkasetrinu


Fram til þessa hefur sumarið gengið mjög vel á Melrakkasetrinu. Mikil og góð umferð ferðafólks var í Súðavík í júní og hafa heimsóknir í Melrakkasetrið aldrei verið fleiri í einum mánuði síðan það var opnað í júní 2010. Það sem af er júlí mánuði hefur einnig gengið mjög vel og talsverð aukning í komu ferðamanna á milli ára.Er hér bæði um fjölgun gesta frá skemmtiferðaskipum sem koma í ferð um Álftafjörð og ekki síður hefur orðið mikil fjölgun á ferðafólki sem ferðast á eigin vegum. Margir koma við á leið sinni í gegnum Súðavík en aðrir koma gagngert vestur á firði til að heimsækja Melrakkasetrið og fræðast um melrakkann.

 

Í sumar hefur verið farið í tvær rannsónaferðir á Hornstrandir. Hin fyrri var farin um miðjan júní og dvalið í tvær vikur í Hornvík og Hlöðuvík. Fyrri vikuna var dvalið í Hornvík og ábúð óðala sem og frjósemi og ásigkomulag refa könnuð. Einnig voru þar vöktuð þrjú greni og fylgjast með viðbrögðum dýranna, sem þar búa, við áreiti ferðamanna.

Seinni vikuna var dvalið í Hlöðuvík og ábúð á óðölum í Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík könnuð sem og frjósemi dýra sem þar fundust. Allt töku 8 manns þátt í ferðinni, tveir starfsmenn Melrakkasetursins og 6 sjálfboðaliðar.

Seinni ferðin var farin fyrrihlutan í júlí og stóð yfir í eina viku. Dvalið var í Hornvík og sömu greni vöktuð og í júní ferðinni og fylgst með hvort atferli dýranna væri annað þegar ferðamannastraumur væri orðinn meiri. Alls tóku fimm manns í ferðinni, einn starfsmaður Melrakkasetursins og fjórir sjálfboðaliðar.

Hér má sjá nánari upplýsingar um rannsóknaferðina í júní.

 

 

04.06.2014 - 15:37

Í byrjun sumars – opiđ hús

« 1 af 3 »

Í byrjun sumars – opið hús

Nú eru melrakkarnir í Eyrardal komnir í sumargírinn og þeim hefur einnig fjölgað. Til liðs við Midge og Jónas eru þau Genka Yordanova og Þórir Halldórsson komin aftur til sumarstarfa og svo einn nýliði Elín Andrea Vikse Helgadóttir. Fyrsti sjálfboðaliðinn kom til liðs við okkur s.l. sunnudag og verður á Melrakkasetrinu næstu tvær vikurnar. Fleiri munu bætast við um helgina og í næstu viku enda fyrsta rannsóknarferðin í Hornvík áætluð laugardaginn 14. júní. Þá mun Ester Rut halda norður ásamt 6 sjálfboðaliðum og  dvelja þar við rannsóknastörf í eina viku.

 

Í byrjun júní breyttist opnunartími Melrakkasetursins og er nú opið frá kl. 9:00 til kl. 20:00 alla daga vikunnar nema föstudaga og laugardaga, en þá er opið til kl. 22:00.

Í hádeginu verður að venju boðið upp á grænmetissúpu og núbakað brauð, einnig verður hægt að fá plokkfisk og rúgbrauð flesta daga. Nýbakaðar vöfflur og heimabakaðar kökur verða að sjálfsögðu í boði allan daginn.

 

Opið hús

 

Mánudaginn 9. júní verður opið hús í Melrakkasetrinu í tilefni þess að um þær mundir verða liðin fjögur ár frá opnun Melrakkasetursins.

Að venju verða veitingar í boði húsins. Boðið verður upp á afmælistertu frá Gamla bakaríinu og sumardrykkinn Mix frá Ölgerðinni ásamt heimabökuðum kökum og kaffi.

Frítt verður á sýninguna, leiktæki fyrir börn og fullorðna verða til staðar og hver veit nema eitt og eitt tónlistaratriði læðist inn á milli.


 

Vefumsjón