06.03.2014 - 11:24

Forstukonu Melrakkasetursins boin sendiherrastaa.


Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur og forstöðukona Melrakkaseturs Íslands í Súðavík, hefur verið valin í fimmtíu manna hóp sendiherra umhverfisverndarsamtakanna 1% For the Planet. „Já, ég er alveg hissa en jafnframt stolt fyrir hönd Melrakkasetursins og allra þeirra sem við vinnum með. Það er ekki búið að leggja okkur línurnar og við bara bíðum eftir fyrirmælum um næstu skref. Þetta mun klárlega vekja athygli á verkefninu okkar, refunum og Vestfjörðum,“ segir Ester Rut. 

Það var árið 2001 sem bandarísku félagarnir Yvon Chouinard, stofnandi og eigandi útivistarvöruframleiðandans Patagonia, og Craig Matthews eigandi fluguveiðiverslunarinnar Blue Ribbon Flies stofnuðu samtök sem þeir kölluð 1% For the Planet. Samtökin eru samstarfsvettvangur fyrirtækja sem lofa að ánafna minnst einu prósenti af ársveltu til raunverulegra umhverfisverkefna. Síðan félagsskapurinn var stofnaður hafa meira en 100 milljónir bandaríkjadala runnið frá þeim til umhverfismála. 

Ísfirska ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures og Melrakkasetrið voru fyrst fyrirtækja á Íslandi til að gerast meðlimir í samtökunum, en það var árið 2010. Bæði þessi fyrirtæki höfðu stutt grasrótarsamtök sem börðust fyrir umhverfisvernd og þeir deildu þeirri skoðun að heilbrigð náttúra væri nauðsynleg fyrir framtíð mannkyns og framtíð fyrirtækja þeirra. „Melrakkasetrið hefur verið í miklu og góðu samstarfi við Borea Adventures, sem aðstoða okkur viðrannsóknir sem við framkvæmum í friðlandinu á Hornströndum og í framtíðinni munum við leita eftir enn frekara samtarfi bæði innan og utan Íslands,“ segir á vefsíðu Melrakkasetursins. 


Frétt af bb.is
04.03.2014 - 09:28

Samstarfsvettvangur um refa- og minkaveiar  • Ljósmynd Sigurður Á. Þráinsson
    Ljósmynd Sigurður Á. Þráinsson


Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað samstarfsvettvang til að fylgja eftir tillögum sem fram komu í skýrslu starfshóps ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd refa- og minkaveiða. Samstarfsvettvangnum er falið að auka samræmingu og skilvirkni í málaflokknum og að formgera samstarf þeirra aðila sem að framkvæmd veiða á ref og mink koma.

Í fyrrnefndri skýrslu voru lagðar til margs konar umbætur er varða framkvæmd refa- og minkaveiða. Verkefni samstarfsvettvangsins verður að fylgja eftir tillögum í skýrslunni og koma þeim umbótum sem þar eru tilgreindar í framkvæmd.

Snúast þær umbætur um skipulag veiðanna og framkvæmd þeirra. Meðal annars er vettvangnum ætlað að standa að samráði um setningu markmiða fyrir veiðar á ref og mink og gerð aðgerðaáætlana sem miða að því að ná þeim markmiðum, leggja grunn að breyttum starfsháttum við skipulag og framkvæmd veiðanna og vinna tillögu að breytingu á reglugerð um refa- og minkaveiðar.    

Samstarfsvettvangurinn er skipaður fulltrúum þeirra sem fara með þessi mál samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en það eru Umhverfisstofnun (formaður), Náttúrufræðistofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hópurinn er skipaður til næstu þriggja ára og þarf að skila ráðherra árlega skýrslu um starf sitt og framgang veiðanna.

Frettir frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2551
Vefumsjn