26.05.2014 - 22:17

Doktor Ester Rut Unnsteinsdóttir


Mánudaginn 19. maí síðast liðin varði Ester Rut Unnsteinsdóttir doktorsritgerð sína í líffræði við Háskóla Íslands.

Verkefnið ber heitið „Íslenska hagamúsin Apodemus sylvaticus: stofnbreytingar og takmarkandi þættir á norðurmörkum útbreiðslu“ (The wood mouse Apodemus sylvaticus in Iceland: population dynamics and limiting factors at the northern edge of the species’ range).

 

Leiðbeinendur Esterar voru þeir Dr. Páll Hersteinsson (1951-2011), dýravistfræðingur , prófessor í spendýravistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur,  forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi.

 

Andmælendur vour  Dr. Ian Montgomery, prófessor í dýravistfræði  við Queen´s Háskólann í Belfast, N-Írlandi og Dr. Frauke Ecke, vistfræðingur og vísindamaður við sænska Landbúnaðarháskólann í Uppsölum, Svíþjóð.

 

Doktorsnefndina skipuðu Dr. Páll Hersteinsson (1951-2011), dýravistfræðingur , prófessor í spendýravistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands,  Dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur,  forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, Dr. Arnþór Garðarsson, dýrafræðingur, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og  Dr. Rolf A. Ims, dýravistfræðingur, prófessor í vistfræði norrænna svæða við Háskóla heimskautafræða í Tromsö í Noregi.

 

Athöfninni stjórnaði Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent og starfandi deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

 

Ágrip
Hagamúsin er kjörin til rannsókna á takmarkandi þáttum og stofnvistfræði á nyrstu mörkum útbreiðslu. Hagamúsin barst til Íslands með fyrstu mönnum á eða fyrir 10. öld en landið liggur norðar en náttúrleg mörk tegundarinnar og engin önnur nagdýr eru jafn útbreidd í villtri náttúru landsins.

 

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða þættir hafa áhrif á stofnvistfræði íslensku hagamúsarinnar. Í þeim tilgangi voru mýs veiddar, merktar og endurveiddar í reglubundnum veiðilotum á tveimur ólíkum búsvæðum: túnum á Kjalarnesi og blönduðu skóglendi að Mógilsá, bæði á Suðvesturlandi.

 

Rannsókn þessi leiddi í ljós sterkar vísbendingar um að hagamúsastofninn á Kjalarnesi takmarkaðist óháð þéttleika. Í skóglendinu að Mógilsá voru hins vegar þéttleikaháðir þættir líklegri til að ráða stofnstærð hagamúsa eins og þekkt er á svæðum nær miðju útbreiðslusvæðis tegundarinnar í Evrópu. Samanburður þessara tveggja búsvæða sýnir að skóglendið er langtum hagstæðara fyrir hagamýs en túnin á Kjalarnesi. Í skóginum er þéttleikinn mun meiri, lífslíkur eru óháðari veðri og stöðugri, líkamsþyngd er meiri og fæða hugsanlega betri. Allt eru þetta þættir sem skipta máli fyrir afkomu músanna.

 

Á vorin og fyrri hluta sumars reyndist afar erfitt að veiða nógu margar mýs til að geta metið stofnstærð og fyrir aðra tölfræðilega úrvinnslu. Um haustið veiddist hins vegar vel af músum á öllum aldri og hægt var að greina gögnin og gera ýmsa útreikninga eftir aldri og búsvæðum músanna. Þar sem stofnmatið er byggt á veiðigögnum sem svo erfitt reynist að ná þegar stofninn er lítill að vori var þróuð ný aðferð til að leysa vandann. Með þessari leið tókst að sýna fram á stofnvöxt um 100 dögum fyrr en hægt var með hefðbundnum stofnvistfræðilegum aðferðum. Þessi rannsókn hefur sýnt fram á að hægt er að nota gögn úr lífgildruveiðum frá tímabilum þegar vel veiðist til að meta stofna smárra nagdýra á tímabilum þegar lítið veiðist.

 

Niðurstöðurnar koma að gagni við stofnmat og eru ekki síður áhugaverðar í ljósi verndunarsjónarmiða og þegar unnið er með fágætar tegundir. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mikilvægt innlegg hvað varðar þekkingu á vistfræði náttúru og dýralífs á norðlægum slóðum.
 

Um doktorsefnið
Ester Rut Unnsteinsdóttir er fædd í Hafnarfirði árið 1968. Hún lærði tækniteiknun í Iðnskóla Reykjavíkur og starfaði hjá Glámu/Kím arkitektum frá 1989 en ákvað að söðla um og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ árið 1994 og B.Sc. próf í líffræði frá Háskóla Íslands vorið 1999. Eftir það starfaði Ester sem náttúrufræðikennari og lauk kennslufræði á framhaldsskólastigi við Kennaraháskóla Íslands vorið 2005.

Ester hefur sinnt rannsóknum á refum á Hornströndum í samstarfi við Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða frá árinu 1998.

Haustið 2007 stofnaði hún, ásamt samstarfsaðilum, Melrakkasetur Íslands ehf. og starfaði þar sem forstöðumaður þar til sl. haust. Hún gegnir nú starfi spendýravistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Ester Rut er gift Þóri Sigurhanssyni og eiga þau tvær dætur, fæddar árin 1989 og 1995.  

                                                                                  (Af heimasíðu Háskóla Íslands)

Stjórn og starfsmenn Melrakkaseturs Íslands óska Ester og fjölskyldu hennar til hamingju með þennan merka áfanga. 

15.05.2014 - 14:42

Ester Rut flutti erindi į Hrafnažingi


Fyrir stuttu hélt Ester Rut Unnsteinsdóttir erindi á Hrafnaþingi sem hún nefndi „Merkilegir melrakkar.“  Þar fjallar hún um málefni melrakkans frá ýmsum hliðum, m.a. útbreiðslu hans og viðgang, veiðar og veiðiaðferðir, kostnað við refaveiðar og rannsóknir og mikilvægi rannsókna.

Hrafnaþing er heiti á fræðsluerindum Náttúrufræðistofnunar sem eru á dagskrá yfir vetrartímann og er að jafnaði annan hvern miðvikudag. Hrafnaþing hefur verið haldið allt frá árinu 2003, þar kynna starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir sínar og gestafyrirlesurum er boðið að flytja erindi. Hrafnaþing er vettvangur fyrir umræður um náttúrufræði.

Úrdráttur úr erindi Esterar.

Melrakkinn er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og finnst hann um allt land. Tegundin er hánorræn og hefur aðlagast loftslagi og fæðuframboði norðurhjarans vel. Útbreiðslusvæðið hefur þó dregist verulega saman sl. öld og hafa tófur verið friðaðar á Norðurlöndunum í yfir 80 ár. Talið er að hlýnandi veðurfar á norðurslóðum séu megin ástæða fyrir vandræðum tegundarinnar. Á Íslandi hafa refaveiðar hafa verið stundaðar frá örófi alda, ýmist vegna feldarins sem var dýrmætur en einnig til að mæta tjóni á búfé af völdum refa. Gríðarlega miklum fjármunum hefur verið varið í veiðarnar en tjónið hefur aldrei verið metið og er því óþekkt. Rannsóknir í samstarfi við veiðimenn hófust á níunda áratug síðustu aldar og hafa vakið athygli út fyrir landsteinana. Stofnmatið sýnir að refum hefur fjölgað allt frá því mælingar hófust en refastofninn var í lágmarki upp úr 1970. Ástæða fjölgunarinnar er væntanlega betri afkoma og er hlýnandi veðurfar mikilvægur þáttur. Frá 1997 hefur þó fjölgunin orðið hraðari en áður og má leiða líkum að því að aukin hvatning til vetrarveiða og óhóflegt magn ætis sem lagt er út sem agn víða um landið skipti þar miklu. Takmarkandi þættir stofns á borð við tófuna eru einmitt fæða að vetrarlagi en hún skiptir höfuðmáli fyrir lífslíkur og frjósemi læðna. Vegna félagsgerðar tímgast aðeins hluti kynþroska dýra af báðum kynjum. Þar sem grenjavinnsla hefur verið stunduð hérlendis um langt skeið virðist sem yngri dýr nái að tímgast en gerist á svæðum þar sem ekki er stunduð grenjavinnsla. Með auknu veiðiálagi hefur ekki tekist að stemma stigu við stækkandi stofni og hefur átakið haft þveröfug áhrif.

Afar brýnt er að fylgjast áfram með stofnbreytingum og besta leiðin er sú að fá sýni úr úrtaki veiðimanna af öllu landinu. Á síðasta ári var sýnt fram á að refir við sjávarsíðuna á Íslandi eru talsvert mengaðir af kvikasilfri en refir inn til landsins eru nánast lausir við þessi eiturefni. Ekki er allt sem sýnist og hugsanlega er íslenski refastofninn ekki eins sterkur og heilbrigður og menn hafa hingað til haldið. Ísland hýsir stærsta hluta Evrópustofnsins og ber ábyrgð á viðgangi hans. Rannsóknir á íslenska melrakkanum eru mikilvægari en nokkurn tímann, ekki síst vegna áhrifa hlýnunar á tegundina á heimsvísu.

Hér er hægt að hlusta á upptökur af erindinu.

https://www.youtube.com/watch?v=O3ETEXq5oGA


Vefumsjón